Það er búið að vera mjög fróðlegt að fylgjast með þróuninni á hlaðvörpum undanfarin tvö ár eða svo. Minnir mig smá á blogg-bylgjuna upp úr aldamótunum – þá var mikið af fólki að byrja með sitt eigið blogg (eitt eða með fleirum). Fyrir aldamótin voru vissulega ýmsir byrjaðir að blogga sem voru með þekkinguna til að nota sérsniðna lausn. En eftir aldamótin fóru kerfi eins og Blogger, Movable Type, WordPress, BlogCentral o.s.frv. að poppa upp sem gerði það auðveldara og aðgengilegra fyrir fleiri að byrja að blogga.
Núna finnst mér vera svipuð staða með hlaðvörp. Það er langt síðan fólk með kunnáttuna og tólin settu í loftið hlaðvörp – ég man t.d. eftir að hafa hlustað á Ricky Gervais hlaðvarpið í strætó á leiðinni í HR (ca. 2006 líklega). En núna er meira um aðgengileg og ódýr tól og tæki þannig að nánast hver sem er getur byrjað með sitt eigið hlaðvarp og auðveldlega dreift því.
Þjónustur til að framleiða hlaðvörp
Anchor fór í loftið 2015, fyrst sem samfélagsmiðill fyrir hljóðupptökur (“social audio service geared for short-form content”) en breytti síðan um stefnu (pivot-aði) yfir í að vera þjónusta til að hjálpa fólki að gefa út hlaðvörp (“platform for podcast creation”) 2018. Spotify keypti svo Anchor 2019 – þau vilja vera risi í „hljóð-neyslu“ hvort sem það er tónlist eða hlaðvörp sem fólk hlustar á. Í gegnum Anchor er hægt að taka upp, klippa saman og framleiða hlaðvarp ásamt að koma því auðveldlega í dreifingu á öllum helstu hlaðvarpsveitunum.
Það kostar ekki neitt að nota Anchor – af því að Spotify vill eiga góðan hluta af hlaðvarpsmarkaðnum og öll gögnin sem því fylgir. Það virðist vera að virka ágætlega – samkvæmt þeim er þriðja hvert hlaðvarp sem er búið til í heiminum framleitt með Anchor. En svo eru líka aðrar lausnir í boði (bæði ókeypis og aðrar sem kosta): SoundCloud, Podbean, Transistor, Simplecast og Libsyn sem dæmi.
Til að byrja með voru það aðallega einstaklingar og hópar sem voru með blogg. En svo áttuðu fyrirtæki sig smám saman á ávinningnum við að blogga reglulega. Mér sýnist það einmitt vera að gerast núna – fleiri og fleiri fyrirtæki og stofnanir eru að setja upp sitt eigið hlaðvarp. Sagan endurtekur sig 😉
Mitt eigið hlaðvarp
Ég var búinn að vera lengi með löngun í að byrja með hlaðvarp – var bara ekki alveg viss með umræðuefni eða snið þannig að þetta yrði eitthvað meira en 2-3 þættir á ári. Ég er búinn að vera skrifa kvikmynda-örgagnrýni í 13 ár og oft er það eftir að hafa farið í bíó með Birni. Björn byrjaði fyrir einhverjum árum síðan að setja inn mjög skemmtilega 10 sekúndna búta á Snapchat þar sem hann ræðir kvikmyndir sem hann var að sjá og gefur þeim stjörnur.
Fólk hefur kannski tekið eftir því, en við Björn erum núna búnir að leiða saman hesta okkar og settum í loftið hlaðvarpið Búnir með poppið síðasta haust. Við erum búnir að taka upp 10 þætti, en COVID-19 setti smá strik í reikninginn. Þótt kvikmyndahúsin séu núna búin að opna aftur þá er búið að fresta útgáfunum á mikið af stóru myndunum, þannig að það er ekki mikið úrval af góðum myndum í bíó. En við förum að skella okkur í stúdíóið bráðlega – og til gamans má geta að „stúdíóið“ er reyndar bara sími og hljóðnemi í bílunum okkar eða bílskúrnum, það þarf ekki mikið meira til 😄
Þú mátt endilega hlusta á nýjasta þáttinn okkar og gerast áskrifandi 🍿 🎧 🙏
Síðast uppfært 4. April, 2023
Leave a Reply