Fyrir nokkrum vikum síðan var ég að koma heim úr badminton og var litið upp til himins og sá þessi rosalegu norðurljós. Sjaldan sem maður sér svona kröftug norðurljós dansandi um allan himininn.
Þannig að ég dreif mig inn, greip myndavélina, fjarstýringuna og þrífótinn. Maður þarf að hafa hraðar hendur þegar norðurljósin birtast af því að þau hverfa oftast nokkrum mínútum seinna. Þau voru eiginlega horfina svona 20 mínútum seinna og ég náði nokkrum myndum. Það voru reyndar ekki alveg nógu heppilegar aðstæður fyrir norðurljósamyndatökur – mjög hvasst (kuldinn var heldur ekki að hjálpa).
Þar sem það var svona hvasst og til þess að mynda norðurljós þarf maður að hafa ljósopið yfirleitt opið í nokkrar sekúndur (oft 1 eða 2 mínútur) þá eru myndirnar töluvert hreyfðar. Það hefði hugsanlega verið betra ef ég hefði verið með massívari/betri þrífót.
Ég hljóp inn og skipti um linsu. Vildi prófa fisheye linsuna og sjá hvort það kæmi betur út – ná að grípa meira af himinum í einu. En þá voru norðurljós farin að dofna töluvert.
En það var magnað að standa þarna og stara á þessi fyrirbæri – ég held ég hafi aldrei séð norðurljósin svona litrík (rauð, fjólublá, bleik, blá, græn…). Það er ekkert skrítið að ferðamenn séu tilbúnir að borga góðan pening til að sjá þau – og síðan er maður bara bókstaflega með þetta í bakgarðinum sínum.
Leave a Reply