Síðasti dagur Iceland Airwaves 2008. Skellti mér á smá off-venue dæmi í Skífunni – hef ekki gert það áður. Við Bjössi ætluðum að tékka á Munich sem áttu að vera kl. 17 en þegar við komum rúmlega fimm var einhver íslensk hljómsveit að stilla sér upp – greinilega búið að breyta dagskránni, aftur, án þess að tilkynna það neins staðar, aftur. En það var nú bara fínt – þetta var s.s. Mammút sem voru að spila þarna – fín íslensk tónlist. Síðan spilaði Munich kl. 18 – ágætt danskt rokk í rólegri kantinum.
Fór heim, borðaði kvöldmat og undirbjó að fara aftur út… Planið var að byrja á Listasafni Reykjavíkur en þegar við komum var röðin fyrir utan sú lengsta sem ég hef séð á Airwaves – hún náði að Tollhúsinu og lengra. Maður var ekki að nenna að húka í þessari röð í 2 tíma eða meira þannig að við ákváðum bara að fara á Tunglið þar sem var engin biðröð. Þar var Steed Lord að klára settið sitt. Næst var það Pnau sem var algjör snilld – þvílíkur kraftur í þeim, klikkað partý. Ég var líka að fíla þessa visuals sem voru á skjánum fyrir aftan þá – animated graphics fyrir hvert lag. Viðbót: Reyndar skandall að þeir kláruðu ekki settið sitt af því að rafmagnið klikkaði eitthvað, slökknaði á græjunum í miðju lagi…
Næst á dagskrá var Crystal Castles – það var svona nett geðveiki, crazy hardcore elektró og söngkonan var svona nett psycho á því. Þegar þau voru búin henti trommarinn trommusettinu ofan á áhorfendur – rock & roll.
Þá beið maður bara spenntur eftir aðalatriðinu, Yelle. Það var náttúrulega snilld, klikkað partý og ég lifði tónleikana af án þess að slasa mig alvarlega ;) Smá photo mania í gangi – tók alveg slatta af myndum af Yelle. You have been warned… Total pakkinn fyrir þetta kvöld er 229 myndir. Eftir Yelle var það bara áfram partý, partý, partý… Hópurinn fór á Nasa og síðan aftur á Tunglið.
Ég hefði nú verið til í að sjá CSS og Vampire Weekend en kvöldið heppnaðist samt mjög vel, var í raun algjör snilld. Það hefði pottþétt endað allt öðruvísi ef maður hefði komist inn á Listasafnið, þá hefði maður hugsanlega ekki komist inn á Tunglið til að sjá Yelle.
Síðast uppfært 3. November, 2008
Bjössi says
Ég varð fyrir vonbrigðum með þessar raðir. Þegar Crystal Castles voru að spila þá ætlaði ég skokka yfir í Hafnarhúsið og sjá Vampire Weekend þar sem það var enginn röð fyrir utan. En þegar ég sá röðina inn á Tunglið þá hætti ég við, þar sem ég hefði aldrei komist inn aftur til að sjá Yelle, röðin var svo klikkuð.
Airwaves verður að vera þannig að maður geti skotist á milli staða án þess að standa í röð í klikkaðan tíma. Það er ekki hin fullkomna Airwaves stemmning að vera á sama staðnum allt kvöldið. Að þessu sinni ætla ég ekki að biðja um einhver sérstök bönd fyrir Airwaves ’09, eina sem ég krefst eru styttri raðir svo maður geti séð meira.
En að öðru leyti var þessi helgi algjör snilld, eins og þessar myndir bera með sér. Það er greinilegt að ölvunin hefur aukist með kvöldinu, enda menn að taka tekíla staup langt gengið í 5 um morguninn :)