Við komum heim í gær um 23-leytið og myndi ég segja að þetta hafi verið nokkuð vel heppnuð ferð (fyrir utan að það var stolið af okkur 2 mörkum!).
Á föstudaginn tókum við s.s. strætó kl. 14:47 á lestarstöðina og síðan lest til Köben. Eftir það var síðan ca. 6 klst. í rútu. Rútan var ekki svo slæmur ferðamáti, ágætt fótapláss – það hjálpaði líka aðeins að 45 mín af þessum 6 klst. var í ferju milli DK og DE. Síðan var það bara leigubíll að hótelinu og er ég bara nokkuð sáttur við það miðað við að við borguðum bara 7.000 ISK á mann fyrir 2 nætur. Herbergið var nokkuð flott – mikið stökk frá herberginu í Grundtvig ; ) – gott rúm, mjúkur koddi, góður hiti á herberginu, fín sturta þar sem ég gat staðið uppréttur og maður þurfti ekki alltaf að hafa áhyggjur af því að niðurfallið myndi flæða yfir. Morgunmaturinn var líka mjög góður – ekta þýskt morgunverðar-hlaðborð, sáttur við það.
Fyrir leikinn skelltum við okkur í bæinn að versla smá. Ég keypti mér peysu í H&M og skellti mér auðvitað á Matrix Reloaded ásamt GoodFellas, El Mariachi & Desperado og Linkin Park – Meteora í Karstadt.
Síðan var það leikurinn… við tókum leigubíl á AOL Arena, sem var aðeins lengra í burtu en við héldum – okkur var ekki að fara lítast á blikuna þegar við sáum ekkert nema tré í kringum okkur en völlurinn er s.s. í miðjum skógi. Þetta var alveg rosalegur völlur – risastór – þótt maður vissi að hann tæki 50.000 manns þá gat maður ekki alveg ímyndað sér svona stærð. Ég er nú ekki mesti fótbolta-áhugamaður í heimi en þetta var geðveik stemmning – það er náttúrulega rafmagnað andrúmsloft sem 50.000 manns get skapað. Íslendingar skoruðu 2 glæsileg mörk sem var bara stolið af okkur – ekki sáttur við það!
Eftir leikinn eltum við einhverja Íslendinga og enduðum í Stebba Hilmarz & Co. partý þar sem “eldra fólkið” réð ríkjum.
Við tókum fullt af myndum og nokkur video sem birtast hérna þegar ég kemst í það.
Nenni varla að skrifa meira – ef þið viljið ítarlegri frásögn þá er Bjössi búinn að blogga hérna.
Síðast uppfært 8. April, 2010
Leave a Reply