Ég rústaði badminton-spaðanum mínum í gær. Búinn að eiga hann í 15 ár. Hefur staðið sig vel. RIP. Hann dó með látum – við Hlynur lömdum spöðunum okkar saman í lokaskotinu. En við unnum leikinn þannig að spaðinn dó ekki til einskis.
—
Ég sendi þetta á Facebook í gær en síðan datt mér í hug að það væri sniðugt að hafa þetta líka á blogginu. Gott að geyma svona sögulegar minningar á blogginu. Það er aldrei að vita, kannski gufar Facebook upp úr þurru og þá hverfur allt sem maður hefur lagt blóð, svita og tár í að setja þar inn.
En já, ég fékk þennan Yonex spaða einhvern tíman á tímabilinu 1995-1997, þegar við vorum í Danmörku. Badminton var gríðarlega vinsæl íþrótt þá (hugsanlega ennþá) – mjög margir í bekknum að æfa, þannig að ég skellti mér líka. Fínasta íþrótt. Já, ég fékk spaðann líklega 1996 eða 1997 þar sem þetta var ekki fyrsti badminton-spaðinn minn.
Ég æfði eitthvað smá badminton hjá TBR eftir að við komum heim, en það entist ekki lengi. Þannig að spaðinn var að mestu óhreyfður frá ca. 1998 til 2004 þegar við félagarnir byrjuðum að hittast vikulega og spila badminton (“badda”). Höfum verið með tíma einu sinni á viku á veturna síðan þá, með smá pásu einn veturinn ef ég man rétt. Hópurinn sem hefur verið að mæta hefur breyst smá (eftir því sem fólk hefur farið út í nám eða flutt úr bænum) en ekki mjög mikið.
Baddinn er gríðarlega hressandi. Gaman að stunda svona keppnisíþrótt, ágæt tilbreyting frá hinni líkamsræktinni.
En ég þarf greinilega að fara versla mér nýjan og flottan badmintonspaða. Ég sem var tiltölulega nýbúinn að skipta um net á þessum. En ég er með 2 “vara spaða” sem ég get notað á meðan…