Fólk hefur kannski tekið eftir þessu “Hvað er í gangi?” dóti sem ég setti hérna fyrir ofan. Veit ekki hvort að fólk hafi mikið verið að tékka á þessu en þetta er s.s. tekið frá Twitter. Twitter er eitt af þessum hipp og kúl Web 2.0 síðum og þar sem maður er svo mikill “early adopter” þá ákvað ég að testa þetta til að sjá hvort það væri eitthvað varið í þetta. Það má segja að Twitter sé eins konar örblogg, en það gengur út á að svara spurningunni “What are you doing?” og getur þú uppfært í gegnum netið, úr símanum þínum (SMS) eða með IM.
Þetta er kannski ekki ósvipað “Status Updates” á facebook – en þetta er aðeins meira líbó, það sem maður skrifar þarf ekki að vera í framhaldi af “Hannes is…”. Síðan getur maður líka svarað twitter skilaboðum frá öðrum og sett inn linka með skilaboðunum. Það má líka segja að það séu svipaðar pælingar bakvið þetta og “personal message” á MSN. Margir nota það til að setja inn skilaboð um eitthvað sem þeir voru að gera eða eru að fara gera. Þannig að ef þú setur það (líka) á twitter ertu kominn með safn af sniðugum skilaboðum sem þú vildir endilega koma á framfæri.
Maður er miklu frekar til í að skrifa reglulega svona stuttar “uppfærslur” heldur en að skrifa daglega blogg færslur (sem geta tekið dágóðan tíma)… Það er ekki eins mikil pressa að skrifa eitthvað af viti þegar þú hefur bara pláss upp á 140 stafi ;)
Maður getur skráð sig á Twitter og bætt við einhverju liði sem maður vill fylgjast með – síðan getur þú valið um að fá uppfærslur sendar í gegnum SMS og/eða á vefnum. Annars getur fólk bara tékkað á Twitter síðunni minni – það er meira að segja boðið upp á RSS feed.
Það sem mér finnst sniðugast við Twitter er að þú getur uppfært í gegnum símann þinn. Mér tókst reyndar ekki fyrst að staðfesta símann minn (þegar ég var hjá Vodafone) – en eftir að ég skipti yfir til Símans þá ákvað ég að prófa aftur… og það gekk.
Ég veit ekki hversu mikill áhugi er fyrir svona örbloggi – en fólk vill “vita allt um hvað ég geri” er það ekki? Ég held samt að þetta væri líklega aðeins áhugaverðara ef maður væri að gera eitthvað sérstakt – eins og þegar maður er á ferðalagi (t.d. á InterRail) eða á festivali (eins og Iceland Airwaves). Ég mun t.d. hugsanlega uppfæra aðeins oftar en venjulega þegar ég skrepp til Manchester núna um mánaðarmótin – er áhugi fyrir því?
Til að birta þessi update á blogginu nota ég twitterRSS plug-inið (með smá breytingum) – en það er eitthvað bögg með íslensku stafina. Nenni varla að hakkast í þessu til að fiffa það – þannig að ég held ég skipti bráðum yfir í javascript lausnina sem Twitter býður upp á.
Talandi um web 2.0 þá er ný síða frá digg liðinu sem heitir Pownce. Þeir opnuðu núna í sumar og þetta er “invite only”. Maður er nú ekki búinn að testa þetta alveg nóg en þetta er hugsað til þess að senda skilaboð til vina þinna, skipuleggja atburði og auðveldlega senda skrár þvers og kruss. Ég held að sniðugasti fídusinn sé að maður getur sent (frekar) stórar skrár sín á milli – skrárnar geta reyndar verið max 10 MB (nema þú sért Pro – sem kostar $20 á ári). En það er upplagt til að skiptast á sniðugum MP3 lögum. Ef fólk hefur áhuga á að prófa þetta látið mig vita – ég er með 6 5 [Einar búinn að taka eitt] invite.
OK, þetta var kannski of mikið nördatal fyrir suma lesendur… Ætti ég kannski frekar bara að setja inn einhver sniðug video?